Hlutabréf hækkuðu nokkuð í Evrópu í dag og segir Reuters fréttastofan það stafa að meiri áhættusækni fjárfesta og veikar evru. FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 0,8% í dag og hefur nú ekki verið hærri frá því um miðjan janúar eða 1.362,59 stig.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,7%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 1%, í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan 0,8% og í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,7%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,2% og í Osló hækkaði OBX vísitalan töluvert eða um 3%.