Norðurál og HS Orka hafa ekki náð saman um raforkuverð vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. HS Orka vill fá hærra verð en áður hafði verið áformað.

HS Orka og Norðurál eiga nú í viðræðum um orkukaup vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur það mælst illa fyrir hjá forsvarsmönnum Norðuráls að HS Orka vill nú fá hærra verð fyrir raforkuna en áður hafði verið áformað.

Samkvæmt samningi sem fyrirtækin gerðu með sér árið 2007 var gert ráð fyrir því að Norðurál greiddi ákveðið verð fyrir raforkuna, sem ekki fæst uppgefið hvert er, og myndi á þeim forsendum fara út í framkvæmdir á Helguvík. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins vilja forsvarsmenn HS Orku nú fá hærra verð, einkum þar sem kostnaður fyrirtækisins hefur hækkað mikið frá því samningur var gerður árið 2007.

Þá hafa aðrar forsendur einnig breyst, s.s. skattahækkanir og fleiri, sem hafa þau áhrif að fyrirtækið telur sig ekki geta selt frá sér raforkuna nema fyrir hærra verð en kveðið var á um í samningnum árið 2007.

- Nánar í Viðskiptablaðinu í dag