Hlutabréf hækkuðu á flestum mörkuðum í Asíu í dag en það voru helst hrávöruframleiðendur sem leiddu hækkanir dagsins.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar ríkir einnig nokkur bjartsýni meðal fjárfesta að aðgerðir ríkisstjórna, bæði á vesturlöndum og í Asíu muni á næstu vikum hafa jákvæð áhrif á markaði.

MSCI Kyrrahafs vísitalan hækkaði í dag um 2,1% og hefur nú hækkað þrjá daga í röð.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 3,3% en vísitalan náði um miðja síðustu viku fimm ára lágmarki. Þá hækkaði S&P 200 vísitalan í Ástralíu um 3,9%.

Í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan hins vegar um 2,1%, í Kína stóð CSI 300 vísitalan í stað og í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 0,7%.