Hlutabréf hækkuðu í Asíu í dag, þriðja daginn í röð og voru það helst námufyrirtæki og stálframleiðendur sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

MSCI Kyrrahafs vísitalan hækkaði um 1,1% og sá hluti vísitölunnar er snýr að hráefnisframleiðslu hækkaði um 1,6%.

BHP Billiton, stærsta námufyrirtæki heims hækkaði í dag um 4,6%. Þá hækkaði Rio Trinto um 2,7% svo tekin séu fleiri dæmi af námu- og orkuframleiðendum.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 0,7%, í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 0,9% og í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 1,3%.

Þá hækkaði Straits vísitalan í Singapúr um 0,25% og S&P 200 vísitalan í Ástralíu um 0,1%.