Hlutabréfamarkaðir í Asíu hækkuðu í dag og nam hækkun DJ Asia-Pacific vísitölunnar 1,1%. Að baki er tveggja daga lækkun en Bloomberg segir ástæðu hækkunarinnar vera aðgerðir seðlabanka gegn lánsfjárkreppunni og vísbendingar um að farið sé að rofa til um samruna fyrirtækja.

Verðbréfamiðlarar gera ráð fyrir rólegri tíð framundan á mörkðum það sem eftir er desember. Vogunarsjóðir og aðrir stofnanafjárfestar muni færa sig á hliðarlínurnar og loka stöðum fyrir árslok, að því er segir í frétt MarketWatch.

Hlutabréf í Japan hækkuðu um 1,8%, í Hong Kong um 2,1% og í Sjanghæ um 4,4%.

Námufyrirtækið BHP Billiton í Ástralíu hækkaði um 3,3% en hlutabréfamarkaðurinn í heild þar í landi hækkaði óverulega.