Hlutabréf í Asíu hækkuðu í verði í fyrsta skipti í fjóra daga í dag, en MSCI Asia Pacific vísitalan hafði bætt við sig 0,3% hálftíma fyrir lok viðskipta í Tókýó. Áður hafði vísitalan lækkað um 3,4% á þremur viðskiptadögum.

Fjármálafyrirtæki leiddu hækkunina, eftir að Verslunarbanki Kína (China Merchants Bank) tilkynnti að hagnaður hefði tvöfaldast. Gengi China Construction Bank, næststærsta banka Kína, hækkaði meira en það hafði mest gert í tvo mánuði. Tævanska fjármálafyrirtækið Fubon Financial Holding Co. hækkaði í verði í kjölfar frétta af því að það kynni að fá leyfi til að kaupa hluti í kínverskum bönkum, að því er fram kemur í frétt Bloomberg-fréttaveitunnar.

Bandarísk hlutabréf hækkuðu í verði gær, í fyrsta skipti á árinu, og voru lyfjafyrirtæki í broddi fylkingar eftir að greinendur mæltu með kaupum í hlutabréfum fyrirtækja sem samdráttur í efnahagslífinu hefði minnst áhrif á.