Hlutabréf hækkuðu í Bandaríkjunum í dag í fyrsta skipti í þessari viku. Nasdaq hækkaði um 0,63%, Dow Jones hækkaði um 0,38% og S&P 500 hækkaði um 0,79%.

Vísitölur rokkuðu nokkuð í dag yfir og undir núllið. Til að mynda hafði Nasdaq hækkað um tæp 3% kl. 14 að staðartíma í New York en var komin undið núllið kl. 15 en endaði sem fyrr segir í 0,63% hækkun.

Smásölukeðjur lækkuðu í gær en jákvæðar fréttir í dag gaf mörgum þeirra byr undir báða vængi. J.C. Penny hækkaði um 8,5% eftir að keðjan kynnti góða afkomu á fjórða ársfjórðungi. Þetta er mesta hækkun keðjunnar í yfir fimm ár.

Þá kom einnig fram að arðgreiðslur verði hærri en búist hafði verið við, eða 1,80 dalir á hlut í stað 1,65 dala eins og búist hafði verið við.

Wal-Mart hækkaði einnig í dag eða um 2,1% og Kohl’s hækkaði um 6,8%. Wal-Mart greindi þó frá því í dag að útsölur hefðu ekki staðið undir væntingum í janúar en afkoma fyrirtækisins yrði engu að síður ásættanleg á fyrsta ársfjórðungi. Bloomberg fréttaveitan greindi frá þessu.

Þá kynnti Gap fataframleiðandinn að sala hefði aukist nú þegar á fyrsta ársjórðung og Target smásölukeðjan sagði einnig að búast megi við betri sölu á fyrsta ársfjórðungi en áður hefði verið gert ráð fyrir.

Í S&P 500 vísitölunni eru 31 smásölufyrirtæki og hækkuðu þau saman um 4,3% í dag.

Það voru einnig jákvæðar fréttir af bönkum og fjármálafyrirtækjum sem höfðu áhrif á markaði. Forstjóri J.P. Morgan bankans tilkynnti í dag að lausafjárstaða bankans stæði undir skuldbindingum bankans.

Þá kynnti MBIA um áætlun sína um hlutafjárútboð verðbréfafyrirtækisins upp á 750 milljónir dala og sögðu talsmenn fyrirtækisins að allt kapp yrði lagt í að halda AAA lánshæfismati út árið.