Nú þegar hlutabréfamarkaðir hafa verið opnir í um klukkustund í Evrópu hafa flestir markaðir hækkað lítillega.

Að sögn Reuters fréttastofunnar eru það helst bankar og fjármálafyrirtæki annars vegar og námuvinnslufyrirtæki hins vegar sem leiða hækkanir dagsins.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur hækkað um 1,7% í morgunsárið. Vísitalan hefur þó lækkað um 40% það sem af er ári.

Í Lundúnum hefur FTSE100 vísitalan hækkað um 0,5%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 0,4% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 0,7%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 0,5% en í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 0,4%.

Á Norðurlöndunum hafa allir markaðir þó lækkað í morgun. Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 0,5%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 0,1% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 3,2%.