Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja hækkanir dagsins til jákvæðni fjárfesta gagnvart björgunaraðgerðum Kínverja.

Eins og áður hefur verið greint frá tilkynntu kínversk stjórnvöld í gær að þau myndu setja allt að 600 milljarða dali inn í kínverska hagkerfið í þeirri von að styrkja það.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði í dag um 0,9% en hafði þó fyrr í dag hækkað um tæp 2%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,4%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 0,5% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 1,8%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 1,1% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 1,4%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,8%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,9% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 0,4%.