Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hafa hækkað í morgun. Fyrir dyrum stendur fundur fjármálaráðherra evruríkja í Brussel þar sem vandi Grikkja verður aðalumræðuefnið samkvæmt frétt AP. FTSE 100 vísitalan hefur hækkað um 0,75%, þýska DAX vísitalan hækkaði í mogun um 0,62% og franska CAC 40 um 0,8%.

AP segir að athygli evrópskra markaðsaðila haldi áfram að beinast að vandamálum gríska hagkerfisins. Fyrirhugaður fundur fjármálaráðherra evrulandanna er haldinn í kjölfar fundar forystumanna ríkjanna í síðustu viku. Eftir þann fund var stuðningur í orði boðaður en ekkert ákveðið um fjárhagslega aðstoð Grikkjum til handa. Í þeim efnum hafa Þjóðverjar stigið á bremsuna og vilja að grísk stjórnvöld nái tökum á fjárlagahallanum undir eftirliti Evrópusambandsins. Það hefur verið túlkað á þann hátt að brugðist verði við með einhverjum hætti ef Grikkjum tekst ekki að koma skikki á sín fjármál sjálfir.