Hlutabréf höfðu hækkað á mörkuðum við lok viðskipta í Bandaríkjunum í dag. Mikil sveifla er búin að vera á bréfum í dag og þannig hafði Nasdaq meðal annars lækkað klukkan þrjú á staðartíma en við lok dagsins hækkaði Nasdaq um 0,56%.

Dow Jones hafði hækkað um 0,20% í lok dagsins en var meira og minna í mínus í allan dag. Það sama er hægt að segja um Standard & Poor en í lok dags hafði vísitalan hækkað um aðeins 0,08%. Eins og fyrr segir var lengi vel útlit fyrir því að lækkun yrði á mörkuðum tvo daga í röð en í gær lækkuðu markaðir vestan hafs.

Mikil spenna er í bankakerfinu og samkvæmt markaðsfréttum Nasdaq er gert ráð fyrir að afkoma banka á borð við Citigroup verði sú versta í fimm ár og að bankinn hafi tapað miklu fé vegna óróa á fasteignamarkaði síðustu misseri.