Markaðir hækkuðu í lok dags vestanhafs í dag eftir að hafa verið í mínus fram yfir hádegi. Nasdaq hækkaði um 0,40%, Dow Jones um 0,02% og Standard & Poor's um 0,08%.

Þar sem jólasala var undir væntingum í ár og húsnæðisverð hefur haldið áfram að lækka voru menn áhyggjufullir í upphafi dags eins og tölur sýna fram að hádegi. Bréf í Target féllu um 2% og sá hluti sem snýr að smásölu á S&P vísitölunni féll um 1,4% í dag. Macy's féll um 3,9% og Lowe's féll um 1,2%.

Það voru þó jákvæðar fréttir sem bárust af tæknifyrirtækjum. WSJ greinir frá því að bréf í Apple fóru í fyrsta skipti yfir 200 bandaríkjadali á hlut þegar bréfin hækkuðu í 200,42 dali í dag.

Olíuverð hækkaði einnig í dag um 1,3% og í lok dags kostaði tunnan 93,94 bandaríkjadali.