Greiningardeild Íslandsbanka segir hækkun vaxta íbúðalána geta leitt til verðhækkunar á íbúðarhúsnæði til skamms tíma.

Landsbanki Íslands hækkaði vexti íbúðalána fyrstur viðskiptabankanna og fylgdu Íbúðalánasjóður og Íslandsbanki í kjölfarið. Kaupþing banki hefur ekki hækkað vexti og eru íbúðvextir bankans enn 4,15%.

?Áhrifin vegna væntinga um vaxtahækkun á íbúðamarkaði virðist vera að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði eykst í bráð þar sem kaupendur vilja ná því að kaupa og taka íbúðarlán áður en vaxtahækkun gengur að fullu í garð. Verðhækkun gæti því orðið til mjög skamms tíma af þessum sökum," segir greiningardeild Íslandsbanka.

Bankinn segir þó á móti vega væntingar um áhrif vaxtahækkunar til lækkunar á verði íbúðarhúsnæðis og að spurningin sé hvor áhrifin séu sterkari á verðþróun í bráð.

Samkvæmt tiltækum fjölda kaupsamninga í nóvember hækkaði fjölbýli í Reykjavík um 2,9% og nokkuð umfram hækkanir síðustu mánuði, segir greiningardeildin og vitnar í tölur frá Fasteignamati ríkisins.Hækkun sérbýlis er tæplega 5,1% sem er einnig talsvert umfram það sem verið hefur undanfarið.

?Tölum þessum ber þó að taka með fyrirvara þar sem ekki nema um helmingur samninga í nóvember hafa skilað sér inn í gögnin. Endalegar tölur um verðþróun íbúða á höfuðborgarsvæðinu í nóvember mun Fasteignamatið birta rétt eftir miðjan mánuðinn, segir greiningardeildin.

Annar mælikvarði er fjöldi kaupsamninga en ef kenningin er rétt ætti viðskiptum að fjölga í bráð við núverandi skilyrði. ?Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins hefur kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fremur verið að fækka og voru þeir talsvert færri í nóvember en í október. Þessar tölur styðja því ekki við kenninguna," segir greiningardeild bankans.