Gengi krónunnar hefur hækkað um 1,15% það sem af er degi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis, eftir mikla lækkun síðustu viku - en á föstudaginn var nam lækkunin 2,4% í miklum viðskiptum, að sögn greiningardeildar Glitnis.

"Lækkunin á föstudaginn var fyrst og fremst drifin af mikilli sölu innlendra aðila á krónum. Var gengishreyfingin nokkuð úr takti við það sem aðrar hávaxtamyntir voru að gera á föstudaginn og má sjá hreyfinguna í dag sem leiðréttingu," segir greiningardeildin.

Hún segir að veltan á millibankamarkaði með gjaldeyri var um 40 milljarðar króna á föstudaginn sem er um það bil tvöföld dagleg meðalvelta það sem af er ári. Veltan í morgun hefur einnig verið mikil.