Hækkun gengis krónunnar undanfarið kemur sér illa fyrir sjávarútvegsfyrirtækin líkt og önnur þau fyrirtæki sem hafa tekjur að mestu í erlendum gjaldmiðlum en hluta rekstrarkostnaðar í krónum. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka. Styrking krónunnar á árinu hefur mest verið gagnvart dollaranum en minni gagnvart evrópugjaldmiðlum. Frá áramótum hefur gengi krónunnar hækkað um ríflega 9%. Dollarinn hefur á árinu veikst gagnvart krónunni um tæp 14% en evran hins vegar veikst um 9% og pundið um ríflega 6%.

"Segja má að minni hækkun krónunnar gagnvart evrópugjaldmiðlunum sé huggun harmi gegn fyrir sjávarútveginn því stærstur hluti íslenskra sjávarafurða er fluttur til Evrópu (76% á EES-svæðið árið 2003) en aðeins lítill hluti til Bandaríkjanna (10% árið 2003). Evrópugjaldmiðlarnir (EUR og GBP) eru því mun mikilvægari fyrir sjávarútveginn heldur en dollarinn. Jákvæðu áhrif hækkunnar krónunnar eru þau að erlend lán fyrirtækjanna lækka í krónum talið, einnig vaxtagjöld af erlendum lánum, og kemur það sér best fyrir fyrirtæki þar sem skuldsetning er mikil," segir í Morgunkorninu.