Ýmis tíðindi hafa aukið á bjartsýni manna á Evrópumörkuðum í morgun, t.d. leyfisveiting fyrir lyfsölu í Bandaríkjunum sem hefur valdið hækkun lyfjafyrirtækja og skárra uppgjör Royal Bank of Scotland en búist hafði verið við, en veiking hrávörumarkaðar hefur haldið aftur af hækkunum.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur hækkað um 0,2% það sem af er degi.

FTSE 100 vísitalan í Lundúnum hefur lækkað um 0,1%, AEX vísitalan í Amsterdam hefur lækkað um 0,4% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan staðið í stað.

Í París hefur CAC 40 vísitalan staðið í stað og í Sviss hefur SMI vísitalan hækkað um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 0,4%, OMXS vísitalan í Stokkhólmi hefur hækkað um 0,1%, en í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 1,1%.