Í nýrri greinargerð kemst efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins að þeirri niðurstöðu að 10% hækkun olíuverðs umfram viðmið í þjóðhagsspám ráðuneytisins, valdi samdrætti á landsframleiðslu um einn milljarð króna.

Fjallað er um greinargerðina í nýútkomnu vefriti fjármálaráðuneytisins. Í greinargerðinni eru reiknuð áhrif þess á þjóðarbúskapinn ef olíuverð hækkaði 10% umfram þá hækkun sem ráðuneytið gerði ráð fyrir í síðustu spá sinni. Meginniðurstaða þess reiknings sýnir að draga mundi úr landsframleiðslu um 1 milljarð, sem er samdráttur í hagvexti um 0,1%, þjóðartekjur drægjust saman um 0,2% og viðskiptahallinn myndi aukast um sama hlutfall af landsframleiðslu. Verðbólguáhrifin reiknast 0,13%. Í greinargerðinni kemur fram að enda þótt olíuverð sé sveiflukennt af ýmsum orsökum megi reikna með því að raunverð olíu fari hækkandi til lengri tíma litið.