Verðtryggð skuldabréf hafa hækkað mikið á síðustu vikum. Lengri bréf hafa um 2,66% á einni viku og styttri bréf um 1,47%.

Í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa segir að ástæða mikillar hækkunar á verðtryggðum bréfum er meðal annars væntar gjaldskrárhækkanir Orkuveitu Reykjavíkur. Telja megi líklegt að önnur orkufyrirtæki hækki gjaldskrár sínar í kjölfarið.

„Í kjölfar hærra raforkuverðs er ljóst að fyrirtæki sem reiða sig á rafmagn þurfa að hækka verð á sínum vörum s.s. garðyrkjubændur og bakarar.  Því má búast við töluverðu verðbólguskriði vegna þessa,“ segir í markaðsfréttunum.

Búast við frekari lækkun stýrivaxta

Í markaðsfréttum er búist við frekari lækkun stýrivaxta á næsta vaxtaákvörðunardegi Seðlabankans þann 22. september. Seðlabankinn lækkaði vexti um 1% á síðasta vaxtaákvörðunardegi og voru allir meðlimir peningastefnunefndar sammála þeirri lækkun.

Rök fyrir frekari lækkun stýrivaxta eru meðal annars meiri samdráttur landsframleiðslu spáð var. Fyrri tölur Hagstofunar gáfu til kynna að hún myndi aukast. Þá segir í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa að núverandi stefna í skattamálum og viðhorf til erlendra fjárfesta séu til þess fallin að ýta undir samdrátt. Því sé nauðsynlegt fyrir Seðlabankann að draga enn frekar úr peningalegu aðhaldi.