Frá síðustu áramótum hefur Úrvalsvísitala Kauphallarinnar, ICEX15, hækkað um tæplega 58,5% og sé litið á síðustu tólf mánuði nemur hækkunin tæplega 63% eins og bent er á í Hálffimm fréttum KB banka í dag. Hæst fór vísitalan í 3.947 stig þann 8. október og hafði þá hækkað um tæp 88% frá áramótum. Síðan þá hefur Úrvalsvístalan lækkað um rúm 15%. Það sem af er desember hefur ICEX15 lækkað um rúm 2,6% og stendur nú í 3.350 stigum.

"Þegar einungis sex viðskiptadagar eru eftir af árinu er ekki úr vegi að kanna hvers má vænta af vísitölunni í sögulegu samhengi fram að áramótum. Ef litið er tíu ár aftur í tímann sést að síðustu 6 viðskiptadaga ársins hefur Úrvalsvísitalan hækkað án undantekninga, og oft umtalsvert. Það er því ekki laust við að upp vakni spurningin um hvort sagan endurtaki sig, nú á þessum umbrotatímum á íslenskum hlutabréfamarkaði," segir í Hálffimm fréttum KB banka.