*

þriðjudagur, 26. janúar 2021
Innlent 23. júlí 2020 17:01

Hlaðbær-Colas kaupir eignir Drafnarfells

Samkeppniseftirlitið setti skilyrði við kaup Hlaðbæjar-Colas á eignum Drafnarfells sem tengjast fræsingu á malbiki.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið setti skilyrði við kaup Malbikunarstöðvarinnar Hlaðbæjar-Colas á tilteknum eignum verktakafyrirtækisins Drafnarfells sem snúa að fræsingu á malbiki. Frá þessu er greint á vef Samkeppniseftirlitsins. Það var mat eftirlitsins að samruninn gæti leitt til takmörkunar á samkeppni vegna mögulegrar útilokunar á markaðnum fyrir fræsingu. Samrunaaðilar undirgengust skilyrði með sátt við eftirlitið sem ætlað er að koma í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans. Með undirritun sáttarinnar lauk rannsókn málsins.

Í kjölfar kaupanna mun Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas halda áfram starfsemi og kemur Drafnarfell til með að leggja starfsemi félagsins niður á sviði malbiksfræsingarþjónustu en halda áfram starfsemi á öðrum sviðum, s.s. rekstri fasteigna. 

Í ákvörðun eftirlitsins eru farið yfir áhyggjur Vegagerðarinnar af kaupunum sem gætu dregið úr samkeppni í malbikun hér á landi.

Malbikunarstöðin Hlaðbæjar-Colas skal tryggja að öll þjónusta sem tengist fræsingu sé veitt þeim aðilum sem eftir því óska án mismunar í verði eða öðrum viðskiptakjörum umfram það hagræði sem ætla má að fyrirtækið hafi af umfangi viðskiptanna og málefnalegar ástæður liggi því til grundvallar. MHC er óheimilt að synja um kaup á fræsingu félagsins nema málefnalegar ástæður liggi því til grundvallar, s.s. vanskil.