Á köldu en fallegu haustkvöldi í síðustu viku hlupu tæplega 500 manns af stað í fyrsta Powerade vetrarhlaupinu. Hlaupin eru haldin mánaðarlega frá október og fram í marsmánuð en þetta er í fimmtánda sinn sem þessi hlaupasería er haldin.

Hlaupurunum hefur fjölgað með ári hverju og var þátttökumet slegið í síðustu viku. Dagur Egonsson og Pétur Helgason hafa skipulagt hlaupið frá byrjun en Dagur segir að vöntun hafi verið á skipulögðum hlaupum yfir vetrarmánuðina. Hlaupið sé fyrir alla, ekki eingöngu vana hlaupara. Segja má að hlauparar þurfi þó að vera tilbúnir fyrir íslenska veðráttu því allra veðra von er á þessum tíma.

„Reykjavíkurborg hefur verið dugleg að hjálpa okkur að halda stígunum auðum. Það hefur verið hægt að hringja samdægurs og það hefur verið mokað. Það hafa hins vegar verið hlaup þar sem hefur skollið á blindhríð klukkan fimm og stígarnir eru þá fullir þegar hlaupið hefst. Hlauparar hafa þá þurft að vaða snjó upp á kálfa og það hefur ýmislegt gengið á,“ segir Dagur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .