Norðurheimskautsbaugshlaup TVG Zimsen verður haldið í Grímsey á morgun, laugardag, 6. september. Þetta er þriðja skiptið sem laupið er haldið. Þetta nyrsta almenningshlaup á Íslandi, þar sem m.a. hlaupið er yfir norðurheimskautsbauginn, hefur strax notið mikilla vinsælda og til marks um það fékk hlaupið í fyrra næsthæstu einkunn sem skokkarar gáfu almenningshlaupum á Íslandi á síðasta ári. Í boði er að hlaupa einn eða tvo hringi í kringum eyjuna. Hringurinn er 12 kílómetrar.

TVG Zimsen býður hlaupurum upp á næringu á meðan á hlaupinu stendur og einnig að loknu hlaupi, sem kvenfélagskonur í Grímsey reiða fram. Það sem takmarkar fjölda þátttakenda í hlaupið er fjöldi flugsæta, en bróðurpartur hlauparanna fer með sérstöku flugi tveggja véla Norlandair frá Akureyri til Grímseyjar að morgni nk. laugardags og verður flogið til baka síðdegis.

Fram kemur í tilkynningu að á meðal þátttakenda er Þorbergur Ingi Jónsson, sem var í öðru sæti í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst og fyrstur Íslendinga. Ekkert skráningargjald er í hlaupið.