Það eru ekki aðeins fastakúnnar Melabúðarinnar sem þekkja þetta rótgróna fjölskyldufyrirtæki en hún er á meðal fárra smárra matvöruverslana í Reykjavík.

Pétur Alan Guðmundsson, sem rekur Melabúðina ásamt Friðriki bróður sínum, segir lykilatriðið á bak við farsælan rekstur fyrirtækisins vera gott starfsfólk þess og traustur kúnnahópur. „Við erum með mjög traustan hóp af viðskiptavinum og hann veit að hann fær hjá okkur allt sem hann þarf.“ Af þessum sökum segir Pétur mikilvægt að breyta ekki miklu í rekstrinum.

„Við erum ekki að fara að hlaupa í neinar breytingar því okkar kúnnar vilja það ekki. Þeir vilja halda þessu sem traustu fjölskyldufyrirtæki. Við stækkuðum aðeins í fyrra og það gekk mjög smurt, en við viljum frekar kalla það aðlögun en stækkun,“ segir Pétur Hann bendir síðan á að nokkrar óvæntar nýjungar séu væntanlegar í vor sem gætu orðið spennandi fyrir viðskiptavini Melabúðarinnar.

Viðtal við Pétur Alan Guðmundsson birtist í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem dreift var með Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Þar er fjallað um þau fyrirtæki sem stóðust styrkleikamat Creditinfo og komust í hóp framúrskarandi fyrirtækja. Nálgast má blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .