Svana Helen Björnsdóttir framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Stika hlaut nýverið alþjóðleg verðlaun fyrir góða frammistöðu í viðskiptum og stjórnun í tengslum við útflutning. Voru verðlaunin veitt af International Trade Management (ITM), sem er verkefni sem stutt er af útflutningsráðum nokkurra Evrópuríkja ásamt Evrópusambandinu og fær þátttakendur víðsvegar að úr heiminum. Þótti Svana, sem tilnefnd var til verðlaunanna af Útflutningsráði Íslands, hafa nýtt þekkingu sem hún hefur meðal annars lært á námskeiðum hjá ITM, á hagnýtan hátt fyrir útrás fyrirtækis síns og þykir hún þannig fyrirmynd annarra frumkvöðla. Afhending verðlaunanna fór fram við INSEAD viðskiptaháskólann í Fontainebleau í Frakklandi.

Stiki hefur notið margs háttaðs stuðnings frá Útflutningsráði Íslands síðastliðin misseri. Veturinn 2004-2005 tók Stiki þátt í verkefni Útflutningsráðs, Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH 15). Stika vann þá til verðlauna fyrir bestu markaðsáætlun ársins 2005. Síðan hefur fyrirtækið tekið þátt í alþjóðlega ITM-verkefninu og Útstím-verkefni sem hefur gefið Stika stuðning í markaðsstarfi í Bretlandi og Þýskalandi. Af þessum sökum er það Útflutningsráði Íslands mikið gleðiefni að Svana Helen skildi hljóta umrædd verðlaun ITM.

“Það er mikill heiður fyrir mig að hljóta þessi verðlaun sérstaklega þar sem ég var í hópi með sjö öðrum einstaklingum frá ýmsum löndum sem allir hafa sýnt góðan árangur í erlendu samstarfi og útflutningi á vörum og þjónustu frá sínu landi”, segir Svana Helen. “Stiki hefur nú um nokkurra ára skeið markvisst stefnt að útflutningi á þeirri sérþekkingu sem fyrirtækið hefur í upplýsingaöryggi og hugbúnaðargerð og þjónustu við heilbrigðisgeirann,” segir Svana Helen.

Afhending verðlaunanna fór fram í tengslum við námskeið sem ITM stóð fyrir um útflutningsmál.  Meðal þeirra sem tóku til máls fyrir afhendinguna voru dr. Albert A. Anghern prófessor í upplýsingatækni við INSEAD, dr. Per V. Jenster prófessor við í Chine Europe International Business School í Shanghai og dr. Fons Trompenaars, stofnandi og forstjóri ráðgjafafyrirtækisins Trompenaars Hampden-Turner. Svana Helen tók við verðlaununum úr hendi Philip Williams starfsmanns Alþjóðlega viðskiptaráðsins í Genf.