Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, gerði rétt í þessu hlé á fundi borgarstjórnar vegna frammíkalla á áhorfendapöllunum. Þegar Ólafur F. Magnússon hafði verið kjörinn borgarstjóri með átta atkvæðum gegn sjö byrjuðu stuðningsmenn fráfarandi meirihluta aftur að púa og hrópa.

"Í ljósi þess að gestir á pöllum virða ekki þær reglur sem hér gilda í engu [...] geri ég hlé á fundinum," sagði Hanna Birna. Þar með var fundi frestað.

Áður en fundi var frestað fluttu Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, og Svandís Svavarsdóttir, staðgengill borgarstjóra, kveðjuræður.

Dagur sagði þar meðal annars að hinn nýi meirihluti væri byggður á blekkingum, skorti á upplýsingum, fljótfærnislegum vinnubrögðum og "veruleika sem við höfum aldrei áður kynnst í íslenskri pólitík og víðar," sagði hann.

Svandís sagði meðal annars að sjálfstæðismenn hefðu síðustu  hundrað daga gengið með grasið í skónum á eftir öllum. Það hefði ekki gengið fyrr en veikasti hlekkurinn hefði gefið sig.

Mótmælendurnir fóru sjálfviljugir út þegar fundi hafði verið frestað.