Slóvenska fyrirsætan sem varð eiginkona fasteignajöfursins Donald Trumps átti seint von á því að verða dag einn forsetafrú Bandaríkjanna. Skiptin sem Melania Trump reynir að forðast hönd eiginmanns síns við opinberar athafnir hafa greypst inn í vitund heimsbyggðarinnar seinustu misseri.

Melania virðist ekki sérstaklega áfjáð í að leiða mann sinn opinberlega eða kalla fram þá ímynd að þau séu í hamingjusömu hjónabandi, enda engar marktækar heimildir svo sem um að forsetahjón Bandaríkjanna séu samhent og náin. Það er ekki endilega óvenjulegt í hjónaböndum Bandaríkjaforseta seinustu aldir, en það óvenjulega er kannski að forsetafrúin neiti að leika eða leiki með mikilli tregðu fyrir almenning glaða og káta eiginkonu. Jacqueline Kennedy varð t.d. umtöluð fyrir hversu vandlega hún gætti ímyndar sinnar í fjölmiðlum.

Ljúft miðstéttarlíf í Slóveníu

Melania fæddist árið 1970 í borginni Novo Mesto í Slóveníu, sem þá var hluti af Júgóslavíu, og ólst upp í blokkaríbúð í smábænum Sevnica um miðbik landsins. Hún var skírð Melanija Knavs, dóttir Amöliju Ulcnik og Viktors Knavs, sem lifðu sæmilegu miðstéttarlífi á mælikvarða Júgóslavíu á þessum tíma. Móðir hennar var í góðu starfi sem hönnuður klæðamynstra í barnafataverksmiðju og faðir hennar seldi bíla og mótorhjól hjá ríkisreknu bifreiðaumboði. Hún á tvö eldri systkini, systurina Ines, sem er henni nákomin, og hálfbróðir samfeðra sem hún mun aldrei hafa kynnst. Melania talar vel um æsku sína og áhugi hennar beindist fljótt að klæðnaði og tísku.

Slóvenskur ljósmyndari kom auga á Melaníu þegar hún var áhorfandi á tískusýningu í Ljubljana árið 1987, rétt um sextán ára gömul. Hann bauð henni að sitja fyrir hjá sér, sem hún samþykkti eftir vikulanga umhugsun. Hann varð sannfærður um að hún ætti framtíð fyrir sér sem fyrirsæta. Melania hugði hins vegar ekki á feril sem fyrirsæta, áhugi hennar beindist að hönnun og arkitektúr og hún stóðst meira að segja inngöngupróf í arkitektadeild háskólans í Ljubljana. Árið 1992 vann hún annað sætið í fyrirsætukeppni í Slóveníu og ákvað að hætta í náminu, halda út fyrir landsteinana og reyna fyrir sér í tískuborgunum Mílanó og París. Hún naut ágætrar velgengni þar en varð þó aldrei ofur-módel og þyrsti í meiri frama og hærri tekjur.

Paolo Zampolli, ítalskur milljónamæringur sem rak umboðsskrifstofu fyrir fyrirsætur í New York, uppgötvaði hana meðan hún sat fyrir í Mílanó og París og taldi hana hafa bein í nefinu og með rétta skapferlið til að vinna og þrífast í krefjandi tískuheimi New York-borgar. Melania flutti til borgarinnar um miðjan tíunda áratuginn og fékk orð á sig fyrir ráðdeild og rósemd. Zampolli sagði að öfugt við margar fyrirsætur hefði hún komið til New York til að vinna en ekki til að henda sér í veisluglaum næturlífsins. „Hún kom hingað með skýr markmið, til að sitja fyrir og vinna. Það var ekkert útstáelsi á henni," sagði hann í viðtali við Vanity Fair í fyrra. Grein í The Washington Post fyrir þremur árum tók í sama streng: „Áður en hún hitti Trump og steig inn í glamúrheim eðalvagna og þakíbúða, demanta og kavíars, lifði Melania Knavs rólegheitalífi." Það var Zampolli sem leiddi þau Donald saman árið 1998.

„Ég lifði mínu lífi, tilheyrði minni veröld"

Zampolli vildi halda glæsilega veislu til að vekja athygli á fyrirtæki sínu og valdi Kit Katklúbbinn, vinsælan næturklúbb í Manhattan, til að hýsa gleðskapinn. Hann bauð eins mörgum fyrirsætum og hann gat, þar á meðal Melaníu. Donald Trump var þá nýlega búinn að segja skilið við eiginkonu númer tvö í röðinni, Mörlu Maples, og var að skemmta sér með vinstúlku þegar Zampolli kynnti hann fyrir Melaníu. Sagan segir að hann hafi strax orðið hugfanginn af henni og einsett sér að kynnast henni betur með öllum ráðum. Hún neitaði að láta hann fá símanúmer sitt en hann fékk þó að láta hana fá sitt númer - hann lét hana raunar hafa öll sín símanúmer - og nokkrum dögum síðar sló hún á þráðinn. „Ég vissi ekki mikið um Donald Trump. Ég lifði mínu lífi, tilheyrði minni veröld. Ég fylgdist ekki með Donald Trump og því lífi sem hann lifði," sagði hún í viðtali við tímaritið GQ fyrir tveimur árum.

Þau hófu að hittast og líf þeirra varð fljótt samtvinnað. Eftir nokkra mánuði sleit hún þó sambandinu, að því er virðist vegna þess hversu erfitt Melania átti með að treysta Donald í kvennamálum. En þau byrjuðu saman aftur innan hálfs árs og vinir hennar sem rætt hafa við fjölmiðla um samband þeirra hjóna vilja meina að hann veiti henni öryggi sem sterkur og föðurlegur maki. Myndir af henni nakinni frá því að hún starfaði sem fyrirsæta dúkkuðu upp í kosningabaráttunni 2016 og hneyksluðu eflaust viðkvæmari sálir í Bandaríkjunum, en urðu þó ekki til að valda framboðinu sérstökum skaða. Þá birtu tveir bandarískir fjölmiðlar fréttir þess efnis í ágúst 2016 að hún hefði á tímabili unnið sem fylgikona. Melania brást ókvæða við þessum ásökunum, lögsótti miðlana og krafðist 150 milljón dollara í skaðabætur. Niðurstaðan varð sú að hvor fjölmiðill um sig samþykkti að greiða henni tæplega 3 milljónir dollara í bætur og birtu afsökunarbeiðni.

Árið 2005 gengu þau Donald í hjónaband og ári síðar varð hún bandarískur ríkisborgari.

Ræðan stolin frá Michelle Obama

Eftir að hafa gælt við þá hugmynd í tæpa tvo áratugi að bjóða sig fram til Bandaríkjaforseta segir sagan að Donald hafi borið vangaveltur sínar undir Melaníu árið 2014, og hún sagt honum að hrökkva eða stökkva. Allir væru orðnir leiðir á hringlandahættinum og bollaleggingunum. Þessi afdráttarlausa afstaða Melaníu varð til þess að Donald ákvað að láta slag standa. „Hún var ekkert sérstaklega áfjáð í að hann byði sig fram, en vissi að hann yrði óhamingjusamur ef hann gerði það ekki," hafði Vanity Fair eftir einum af ráðgjöfum Trumps í upphafi kosningabaráttunnar.

Þó svo að hún hafi vissulega staðið við hlið eiginmanns síns við flest þau opinberu tækifæri sem ótilhlýðilegt væri að hún væri fjarverandi, hefur hún frá upphafi þótt hlédræg þegar kemur að pólitíska brölti Donalds og fremur forðast sviðsljósið en hitt. Þegar henni hefur verið teflt fram hefur árangurinn ekki endilega verið henni í hag. Besta dæmið um það er trúlega þegar ræðan sem hún flutti á landsfundi Repúblikanaflokksins sumarið 2016 reyndist vera meira eða minna vera ritstuldur, fengin úr átta ára gamalli ræðu Michelle Obama. Alls óvíst er að Melania hafi komið að ræðurituninni en hún fékk þó skellinn og háðsglósur stjórnmálaskýrenda og pólitískra andstæðinga Donalds dundu á henni.

Hún flutti ekki inn í Hvíta húsið ásamt syni þeirra hjóna, Barron, fyrr en í júní 2017, um hálfu ári eftir að Donald vann forsetakosningarnar. Netverjar hafa haft yndi af því að varpa fram kenningum um yfirvofandi skilnað þeirra hjóna frá því að Donald tilkynnti um framboð sitt og þegar alræmdar upptökur af honum stæra sig af kynferðislegri áreitni („You can do anything. Grab them by the pussy.") urðu opinberar, bættist verulega í slíkar hrakspár. En enginn varð skilnaðurinn. Einn af aldarvinum hennar sagði í samantekt Vanity Fair í fyrra að það væru ekki ný tíðindi að þau hjón lifðu í reynd aðskildu lífi. En sömu heimildir herma að Donald beri hins vegar mikla virðingu fyrir skoðunum hennar og ráðgjöf.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .