Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins (SA), sem nú stendur yfir, var fyrir stundu sýnt myndband þar sem gjaldeyrishöftin voru sett í samhengi við bjórhöftin á sínum tíma. Sem kunnugt er var bjór ekki leyfður á Íslandi fyrr en þann 1. mars árið 1989.

Í fyrrnefndu myndbandi var fjallað nokkuð um bjórbannið á sínum. Eins og flestum er kunnugt, sérstaklega þeim sem eldri eru og þá líkast til á aldri við þá sem sátu aðalfund SA í dag, var sterkt áfengi hins vegar leyft á Íslandi þó svo að bjór væri bannaður.

Í myndbandinu var rætt við Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar, sem sagði að eftir að bjórbanninu var aflétt hafi sá iðnaður fengið að blómstra í landinu. Hann lýsti því hvernig starfsmenn Ölgerðarinnar blönduðu þó öðru hvoru bjórlíki fyrir gesti sína, en tók þó fram að bjórlíkið hefði nú ekki verið upp á marga fiska.

Í myndabandinu voru rifjuð upp ummæli Svavars Gestssonar, þá þingmanns Alþýðubandalagsins en síðan sendiherra og formann samninganefndar um Icesave samningana, þar sem hann mótmælti því harðlega að bjórbanninu yrði aflétt.

Í einu myndbrotinu voru höfð eftir honum ummæli þar sem hann óskaði þess, alvarlegur á svip, að alþingismenn tæki ekki ákvörðun um að „hella ekki áfengu öli yfir íslensku þjóðina“ – og í kjölfarið var mikið hlegið á aðalfundinum sem er þétt setinn í stóra fundarsalnum á Hilton Nordica.

Allt var þetta þó sett í samhengi við það að Íslendingar væru s.s. ekki ókunnugir höftum af ýmsum toga. Í myndbandinu sagði Andri Þór að réttast væri að „rífa plásturinn af“ og aflétta höftunum sem fyrst.

Hann sagði að Íslendingar þyrftu að hafa „smá pung“ til að takast á við afnám haftanna.

Viðbót : Umrætt myndband ásamt fleiri myndböndum sem sýnd voru á fundi SA eru nú aðgengileg á vefnum.