„Á endanum er þetta alltaf spurning um að vera með réttu skilaboðin, rétt framsett þannig að markhópurinn taki eftir þeim og bregðist við á þann hátt sem auglýsandinn leggur upp með. Gæði hugmyndarinnar skipta því gríðarlegu máli í öllu ferlinu, að því gefnu að skilaboðin séu rétt,“ segir Ragnar Már Vilhjálmsson hjá Manhattan Marketing.

Hann segir að það sé liðin tíð að það sé nóg að auglýsa í fréttatíma RÚV og á blaðsíðu 3 í Morgunblaðinu til að ná gríðarlegri dekkun á stórum markhópi. „Þetta er ekki hægt lengur með þeirri tvístrun sem átt hefur sér stað í miðlaflórunni og sífellt erfiðara er að ná til markhópsins, sér í lagi yngri markhópa.“

Á meðan auglýsingar á netinu virðast sífellt vera að færast í aukana erlendis virðist sú þróun ekki vera jafn hröð hérlendis, segir Ragnar.

„Að miklu leyti held ég að það skýrist af eðli markaðarins, þá ekki síst hve lítil innlend verslun er enn hér á netinu, þótt netnotkun sé almennt gríðarlega há. Blöðin njóta enn sterkrar stöðu. Þau eru sveigjanlegur og oft góður valkostur til að koma skilaboðum til stórs hóps með skömmum tíma, einkum ef skilaboðin fela í sér að leitað sé eftir skjótum viðbrögðum eins og til dæmis kaupum á vöru á útsölu, mætingu á tiltekinn viðburð og svo framvegis. Þau eru þó vissulega takmörkuð líka og sífellt erfiðara að ná til yngri hópa í gegnum þau.“

Hanns segir að sjónvarp sé stór hluti markaðarins og hafi verið nokkuð lengi. „Sjónvarp er óvenju hagkvæm og aðgengileg leið að markhópum hérlendis og flestar rannsóknir sýna fram á að sjónvarp er áhrifamesti miðillinn þegar kemur að því að tala til markaðarins. Með aukinni tækni heftur framleiðslukostnaður lækkað og möguleikarnir aukist mikið. Áhorf á sjónvarp er ennþá mjög gott og okkur sýnist sem svo að það sé í mörgum tilvikum ennþá einn hagkvæmasti kosturinn fyrir marga auglýsendur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .