Hugmyndir eru nú uppi um að aðalskiptistöð Strætó verði flutt á Umferðamiðstöðina (BSÍ) sem borgin hyggst kaupa. Þetta hefur áður komið fram hjá borgarstjórn og er nú hafin vinna við að kanna hvaða möguleika Hlemmur býður upp á fari svo að miðstöð Strætó flytjist þaðan.

Borgarstjórn samþykkti í dag að fela umhverfis- og skipulagssviði ásamt skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar að efna til samráðs um framtíðarnotkun skiptistöðvarinnar á Hlemmi. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að stefnt sé að því að byggja upp litlar og meðalstórar íbúðir á reitum í nágrenni við Hlemm auk atvinnu-, þjónustu- og gistirýmis. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp varðandi möguleika á svæðinu og hefur samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni, Miðborgin okkar, meðal annars lagt til að í húsinu verði lífrænn matarmarkaður.

Í tilkynningu frá borginni segir jafnframt að nú standi fyrir dyrum töluverðar breytingar í nágrenni Hlemms og sé talsverð uppbygging framundan í Einholti, Þverholti, Bolholti, Hverfisgötu og Snorrabraut að ógleymdum Landspítalareitnum. Uppbygging á svæðinu bjóði því upp á fjölda nýrra tækifæra.