Mér líst afskaplega vel á þetta. Það er gaman að fá að spreyta sig í starfi sem sameinar þessa tvo heima, lögfræðina og fjölmiðlana, og það eru mörg spennandi verkefni fram undan hjá fjölmiðlanefnd,“ segir Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, nýráðinn lögfræðingur hjá fjölmiðlanefnd. Heiðdís Lilja hefur undanfarin ár starfað í fjölmiðlum, nú síðast sem fréttamaður á fréttastofu RÚV. Hún hefur einnig starfað sem blaðamaður á Fréttatímanum og 24 stundum, og hóf fjölmiðlaferilinn á Nýju lífi, þar sem hún varð seinna ritstjóri.

Auk lögfræðigráðunnar er Heiðdís Lilja einnig lærður píanókennari og starfaði áður við það. Hún segist því miður sinna tónlistinni of lítið nú til dags. „Ég er reyndar með flygil heima hjá mér en gríp sjaldan í hann, kannski af því að ég bý í blokk og óttast þá tilhugsun að nágrannarnir fíli kannski vini mína Bach og Beethoven ekki jafn vel og ég. Þetta stendur til bóta. En ég er alveg hætt að kenna.“

En hvað gerir hún þá annað í frítíma sínum? „Þá fer ég á bókasafnið og næ mér í eitthvað gott að lesa, elda góðan mat, fer út að hlaupa eða í sund. Helst í brjáluðu veðri og sótsvartamyrkri.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .