„Samstarfsfólk mitt hefur tekið einstaklega vel á móti mér og starfsumhverfið er mjög hlýlegt, skemmtilegt og opið," segir Kristjana Milla Snorradóttir, nýr mannauðsstjóri Borgarleikhússins. Hún segir andann á vinnustaðnum vera léttan og mikið sé grínast og hlegið. „Mér hefur þótt skemmtilegast að sjá hvað það starfar fjölbreytt flóra af fólki innan veggja leikhússins. Borgarleikhúsið er mun stærra batterí en margir gera sér grein fyrir. Fólk áttar sig oft ekki á því hve mikil vinna liggur á bakvið leiksýningar, það kom mér t.d. á óvart hve margir koma að hverri leiksýningu."

Samkomutakmarkanir vegna COVID-19 faraldursins hafa bitnað verulega á leikhúsum. Milla segir að þrátt fyrir erfiða tíma undanfarið sé engan bilbug að finna á starfsmönnum Borgarleikhússins. „Mér finnst einkennandi hér innanhúss að fólk einblínir alltaf á jákvæðu hliðarnar. Það finnst mér dásamlegt, enda nærist ég í slíku umhverfi," segir Milla og bætir við að mikil tilhlökkun og eftirvænting ríki meðal starfsfólks leikhússins fyrir að geta hafið hefðbundið sýningarhald án takmarkana.

Áður hefur Milla m.a. stýrt mannauðsmálum hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Nordic Visitor. Hún játar því að starfsumhverfi leikhússins sé frábrugðið fyrri vinnustöðum, en viðfangsefnið sé þó það sama. „Þó að starfsumhverfi vinnustaðanna sé ólíkt, þá snýst mitt starf alltaf um að vinna með fólki. En ég þarf að sjálfsögðu að aðlaga mig að umhverfinu og fólkinu sem ég vinn með hverju sinni. Mitt hlutverk sem mannauðsstjóri er nú rétt eins og í fyrri störfum, að gefa starfsfólkinu tækifæri til að nýta styrkleika sína og sinna vinnunni sinni eins vel og það mögulega getur. Þannig er þeim gert kleift að blómstra í starfi."

Í frítíma sínum eyðir Milla flestum stundum með fjölskyldu sinni en hún er í sambúð með Guðmundi Gunnarssyni og eiga þau börnin Gunnar Sölva, 18 ára, og Lóu Katrínu, 9 ára. Hún segir að fjölskyldan kunni best við sig úti í náttúrunni.

„Mitt helsta áhugamál þessa stundina er náttúruhlaup. Það að hlaupa úti í náttúrunni gefur mér orku, næringu og gleði. Samverustundir með fjölskyldunni veita mér einnig mikla gleði og því reyni ég að eyða sem mestum tíma með henni. Við erum öll mikið útivistarfólk og reynum því að vera mikið úti í náttúrunni. Á sumrin erum við mjög dugleg að fara í útilegur og gistum iðulega margar nætur í tjaldvagninum okkar," segir Milla en að hennar sögn var umræddur tjaldvagn nýttur meira en nokkru sinni fyrr í sumar.

Nánar er rætt við Millu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .