Þegar kröfuhafar Stoða samþykktu nauðasamning félagsins var gerður hliðarsamningur sem veitti kröfuhöfunum heimild til þess að rannsaka félagið líkt og það hefði verið sett í þrot. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að skilanefnd og slitastjórn Glitnis, sem er stærsti einstaki eigandi Stoða með 27% eignarhlut, hafi nýtt sér þennan samning, meðal annars í tengslum við málarekstur sinn í New York.

Þar hefur slitastjórnin stefnt Hannesi Smárasyni, Jóni Sigurðssyni, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, Pálma Haraldssyni, Lárusi Welding, Þorsteini M. Jónssyni og PriceWaterhouseCoopers til greiðslu á 250 milljarða króna skaðabótagreiðslu fyrir að hafa rænt Glitni innanfrá. Allir einstaklingarnir voru stjórnendur eða eigendur Stoða/FL Group utan Lárus, sem stýrði banka í eigu félagsins.

Í síðustu viku voru lögð fram ný gögn í málinu sem eiga að sýna að Hannes Smárason hafi haft bein áhrif á lánveitingar Glitnis. Þau gögn voru fengin á grundvelli þess samnings sem minnst er á hér að ofan.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .