Skiptum er lokið á einkahlutafélaginu Andhrímnir. Engar eignir fundust í búinu upp í lýstar kröfur upp á rétt rúmar 598 milljónir króna. Eigandi félagsins var Magnús Jónatansson, sem var umsvifamikill í aðdraganda hruns efnahagslífsins haustið 2008 og keypti hann lóðir og fasteignir víða, svo sem í Örfirisey og á Suðurlandi.

Hæstaréttarlögmaðurinn Ólafur Garðarsson átti helmingshlut í félaginu á móti Magnúsi í lok árs 2008. Hann hafði selt Magnúsi hlut sinn í félaginu fyrir hluthafafund í mars árið 2009.

Skiptum á búi Andhrímnis lauk 14. ágúst síðastliðinn.

Helsti kröfuhafi Andhrímnis er Íslandsbanki en Byr lánaði félaginu tæpar 440 milljónir króna síðla árs 2008 vegna kaupa félagsins á lóðum við Tangabryggju við svæði Björgunar í nágrenni við Bryggjuhverfið í Reykjavík.

Lánið var veitt til kaupanna í september 2008, örfáum dögum áður en bankarnir fóru á hliðina. Eftir því sem næst verður komist gekk Byr að veðum og tók lóðirnar til sín. Í síðasta uppgjöri Andhrímnis fyrir árið 2009 kemur fram að ógreiddir áfallnir vextir námu 97 milljónum króna. Skuldir námu á sama tíma 541 milljónum króna. Eftir að Byr fór á hliðina eignaðist Íslandsbanki hann og þar með kröfuna.

Félag Magnúsar var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl síðastliðnum.

Magnús var sjálfur úrskurðaður gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness 26. janúar síðastliðinn.