*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Fjölmiðlapistlar 10. febrúar 2019 13:43

Hliðvarslan

Með hliðvörslu er átt við það hlutverk fjölmiðla að gæta þess hvað á erindi í almenna umræðu og hvað ekki.

Andrés Magnússon
„Fordómar söngvarans Páls Óskars Hjálmtýssonar í garð gyðinga vöktu mikla athygli í vikunni, en í kjölfarið dró hann með stuttri yfirlýsingu til baka þau orð sín, sem lutu sérstaklega að gyðingum, en önnur ekki.“
Haraldur Guðjónsson

Talsvert hefur verið rætt um breytt eðli fjölmiðla á nýrri öld, þar sem netið og þá ekki síst félagsmiðlar hafi breytt miklu um þá. Nú geti hver sem er komið tíðindum eða skoðunum á framfæri við almenning og hliðvarsla fjölmiðla því nánast fyrir bí.

Með hliðvörslu er átt við það, að fjölmiðlar hafi haft það hlutverk að gæta þess hvað átti erindi í almenna umræðu og hvað ekki, hver og hver ekki. Að þeir hafi tekið að sér eins konar umræðustjórn í þjóðfélaginu. Nú var það sjálfsagt aldrei svo, að miðlarnir hefðu þar algert vald á og gætu þaggað niður tiltekin sjónarmið. Ólíkir miðlar með misjafna ritstjórnarstefnu veittu hver öðrum nokkurt aðhald í þeim efnum og það er nú einu sinni svo að sannleikurinn hefur verulega tilhneigingu til þess að vætla í gegnum alla veggi.

Eigi að síður er nokkuð til í bollaleggingum um að fjölmiðlar fyrri aldar hafi annast nokkra hliðvörslu af þessu tagi, í einhverjum tilvikum sjálfsagt fremur til skaða fyrir upplýsingu almennings. Á móti má líka nefna ýmis dæmi þess þar sem miðlarnir fóru fram af meiri hófsemd og varúð en nú er stundum raunin, bæði hvað varðaði umfjöllunarefni og málflytjendur.

* * *

Yfirleitt hafa menn fagnað auknum kostum fólks til þess að tjá sig, hvort heldur er á eigin vegum eða á um félagsmiðla. Þar hefur sjónarmiðið verið það að það sé hollt að allar raddir fái að heyrast, líka hinum röngu og heimskulegu. Það sé ekki hlutverk fjölmiðla að skammta almenningi skoðanir, þeir séu ekki uppalendur þjóðarinnar að því leyti, sem aðeins eigi að veita henni réttar og góðar skoðanir, hæfilega og smekklegar fréttir. Sá tími sé sem betur fer liðinn.

Þar er hins vegar rétt að staldra við og gera greinarmun á félagsmiðlum og eiginlegum fjölmiðlum. Á félagsmiðlum getur hver sem er tjáð sig, en það er ekki þar með sagt að það komi fyrir allra sjónir, hvort sem áhugi annarra eða algríma tölvurisanna ræður þar mestu um.

Punkturinn við fjölmiðla er hins vegar sá að þeim er ritstýrt, þar vega menn og meta fréttagildi og hversu markverðar tilteknar frásagnir, atburðir eða skoðanir eru. Það er þeirra sérstaka hlutverk og þeir matreiða það svo hver með sínum hætti fyrir almenning, þann sama almenning og fylgist með fjölmiðlum vegna þess að þeim er ritstýrt, vegna þess að þar hefur mat verið lagt á fréttnæmið og vegna þess að þar eru viðhöfð sérstök vinnubrögð við að staðfesta fréttir og greina hismið frá kjarnanum. Af því að þeir bera það á borð fyrir almenning með þeim hætti virka þeir á sinn hátt sem magnari fyrir þær raddir og ábyrgð þeirra aukin fyrir vikið.

Þess þá heldur nú þegar allar raddir fá að hljóma óhindrað á félagsmiðlum (og fjölmiðlar ófeimnir við að taka hið markverðara af því upp). Af þeirri ástæðu er ekki jafnknýjandi nauðsyn til þess að fjölmiðlar leitist við að láta allar raddir heyrast á síðum sínum eða öldum ljósvakans. Raunar má halda því fram að ástæða sé til þess að þeir herði frekar á ritstjórninni en hitt, einmitt til þess að aðgreina sig frá hinum þúsund radda kór félagsmiðla, sem oft syngur mjög misfalskt.

* * *

Nokkur umræða hefur spunnist af viðtali við íslenskan þjóðernissinna, sem ekki tekur því verulega óstinnt upp við að vera kallaður nazisti. Við því hafa menn brugðist misjafnlega, sumir segja að það sé rétt að allar raddir fái að heyrast, en aðrir segja ógeðfellt að slíkum öfgum sé þannig veitt til almennings.

Þarna skiptir auðvitað máli, að umræddur þáttur Jóns Ársæls Þórðarsonar fjallar sérstaklega um kynlega kvisti í mannlífsflórunni, svo á þeirri forsendu má vel verja viðmælandavalið. En hvað um hitt, að þar sé verið að hampa óverjandi skoðunum?

Vissulega má segja að það eigi erindi við almenning að svo illar skoðanir þrífist á landinu góða. Það er hins vegar tæplega nýlunda að þær finnist í einhverjum skúmaskotum og varla fréttnæmt nema að þær skipti einhverju máli. Nú vill svo til að kosningar hafa verið tíðar í landinu hin síðari ár og þjóðernissinnar boðið sig þar fram við nánast engar undirtektir. Það er því erfitt að halda því fram að þær skoðanir þarfnist frekari athugunar eða kynningar. Og kannski enn síður þegar haft er í huga að líklega var efnt til þeirra framboða gagngert til þess að fá aðgang að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga, en ekki í raunverulegri von um að fá fulltrúa kjörna.

Að því leyti má því finna að því að verið sé að veita öfgaskoðunum athygli, langt umfram tilefni. En einnig að viðkomandi kunni að vera nægilega skrýtinn til þess að eiga erindi í sérstakan þátt um sérkennilegt fólk. Svo er annað mál hversu uppbyggileg eða falleg slík dagskrárgerð er, þó hún hafi átt nokkrum vinsældum að fagna hér á landi undanfarna áratugi. Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl kallaði hana á dögunum fríksjó.

* * *

Viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu vakti einnig ýmsar spurningar, meðal annars þær hvort ástæða væri til þess að veita honum slíkan stall til þess að tjá sig um margháttaðar og alvarlegar ásakanir á hendur honum.

Auðvitað má spyrja hversu vel slíkt viðtal hentar til þess að brjóta svo flókið og viðkvæmt mál til mergjar, almenningi til gagns. Eftir sem áður verður ekki hjá því litið að ásakanirnar hafa verið gerðar opinberar með ýmsum hætti og meðal annars snúið að því að Jón Baldvin hafi verið valdamaður og opinber persóna um áratuga skeið. Það er því tæplega unnt að synja honum þess að verja sig á opinberum vettvangi kjósi hann svo, en af viðbrögðunum er augljóst að almenningur hafði mikinn áhuga á, þó skoðanir hafi eflaust ekki verið minna skiptar eftir sem áður. Í því samhengi er og rétt að hrósa Fanneyju Birnu Jónsdóttur fyrir góða framgöngu í vandasömu viðtali.

* * *

Fordómar söngvarans Páls Óskars Hjálmtýssonar í garð gyðinga vöktu mikla athygli í vikunni, en í kjölfarið dró hann með stuttri yfirlýsingu til baka þau orð sín, sem lutu sérstaklega að gyðingum, en önnur ekki. Nær allir fjölmiðlar greindu frá því í fyrirsögn að hann hefði beðist afsökunar á þessum orðum, þó það hafi verið sérstaklega athyglisvert að það gerði hann einmitt ekki. Getur það verið að enginn fjölmiðlungur hafi lesið yfirlýsinguna?