*

laugardagur, 19. september 2020
Fjölmiðlapistlar 21. október 2019 07:32

Hliðverðir

Netið gerbreytti einnig einu af höfuðhlutverkum fjölmiðla, sem þeir höfðu raunar gengist mismikið við, en það er hliðvarslan svonefnda.

Andrés Magnússon
Boris Johnson forsætisráðherra Breta hefur verið duglegur á félagsmiðlum

Varla þarf að fjölyrða um þær miklu breytingar, sem orðið hafa á fjölmiðlum með tilkomu netsins. Á það hefur oftsinnis verið drepið í þessum dálkum, bæði hvað varðar rekstrargrundvöll fjölmiðla, en eins breyttar áherslur í fjölmiðlum af þeim sökum. Mikið ýmsa nýbreytni netmiðla, en líka hvað þeir hafa margir þynnt út eiginlega blaðamennsku með smellubeitum og endursögnum úr öðrum miðlum. Að ekki sé minnst á hinn furðulega efnisflokk Fréttir af Facebook, þar sem hinar og þessar færslur hjá misnafntoguðu fólki verða tilefni einhverskonar frétta, þó oft sé það lítið annað en endurbirting á færslunni.

                                                                                   * * *

Netið gerbreytti einnig einu af höfuðhlutverkum fjölmiðla, sem þeir höfðu raunar gengist mismikið við, en það er hliðvarslan svonefnda. Dagskrárvaldið, var einhverntíman sagt. Hliðvarslan fólst í því að fjölmiðlar réðu því líkt og nú hvað rataði í hvern og einn þeirra, hvað fékk náð ritstjórnarinnar, hverjir voru valdir í viðtöl, hverjir þóttu áreiðanlegustu heimildarmennirnir. Um sumt var þegjandi samkomulag, ekki endilega af því verið væri að reyna að hlutast til um skoðanamyndun í landinu, oftar sennilega vegna þess hvað þótti tilhlýðilegt og passandi. Það varð vafalaust til þess að fjölmiðlar sýndu oft tillitssemi, sem ekki er víst að væri viðhöfð, en stundum líka óþarfa tepruskap. Jafnvel svo að ekki var fjallað um viðkvæm mál, sem þó gátu vel verið fréttnæm, alvarleg og átt fyllsta erindi við almenning. Hliðvarslan má heita fyllilega úr sögunni nú. Það er einfaldlega ekki lengur í verkahring fjölmiðla að ákvarða hvað eigi erindi til opinberrar birtingar og hvað ekki. Hver og einn getur verið sinn eigin fjölmiðill og málpípa á netinu — á Snapbook, Twitface og hvað þetta heitir allt. Á bloggi ef menn eru mjög fornir í háttum. Það þýðir að það er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvað hann birtir opinberlega og svo er það lækað, endurtíst og endurómað af öðrum. Það er eins opinbert og hugsast getur og um leið getur enginn fjölmiðill litið hjá því. Svona ef í því er frétt.

                                                                                   * * *

En það er annað hlutverk, sem fjölmiðlar eiga enn og rækja flestir sæmilega. Það er að halda fólki við efnið, spyrja þeirra spurninga sem spyrja þarf. Almennt auðvitað þá sem eru í fréttum þann daginn, en kannski ekki síst valdhafana. Bæði þessa í stjórnmálunum og viðskiptajöfrana, menningarvitana og aðra þá sem einhverju valda í samfélaginu. Auðvitað er misjafnt hvernig það er gert og á dögum flokksblaðanna gömlu gat það verið með ýmsum hætti. Frægt er t.d. þegar Matthías Johannessen var nýráðinn ritstjóri á Morgunblaðinu og síminn hringdi. Var þar kominn Ingólfur Jónsson á Hellu, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og sjálfsagt ráðherra þá. Eftir að hafa kastað kveðju á ritstjórann hóf hann svo lesturinn á frétt morgundagsins um sig, þar sem tíunduð voru ýmis afrek og snjöll tilsvör. Þegar loks kom málhlé hjá Ingólfi greip Matthías fram í og sagði „Ég var ekki ráðinn hingað sem ritvél, heldur sem ritstjóri.“ Varð svo fátt um kveðjur. En ástandið skánaði mikið eftir þetta og almennt hafa miðlarnir staðið sig vel í þessu heilt yfir litið. Auðvitað finnst viðmælendunum þetta ekki alltaf skemmtilegt, jafnvel hrein leiðindi. En það er einmitt hlutverk fjölmiðlanna, að vera með slík leiðindi, að rukka menn um svör við erfiðum spurningum í stað þess að vera aðeins í viðtöku og endurvarpi.

                                                                                   * * *

Þetta hefur breyst ögn með félagsmiðlunum. Jafnvel heilmikið. Nú geta menn ef þeim svo sýnist úttalað sig á félagsmiðlum og mikið til sleppt því að svara símanum þegar fjölmiðlar hringja. Þegar sá hátturinn er hafður á er afar ólíklegt að þeir svari nauðsynlegum og erfiðum spurningum um málefni dagsins. Auðvitað þarf það ekki allt að vera af hinu verra. Þannig hefur t.d. verið til þess tekið hvað Boris Johnson forsætisráðherra Breta hefur verið duglegur á félagsmiðlum. Þar tjáir hann sig daglega um hið helsta sem hann er að fást við, ágætlega skemmtilegt margt, en óneitanlega nokkuð áróðurskennt. Hann hefur einnig sýnt þá nýbreytni að vera með „fyrirspurnartíma fólksins“ á Facebook, þar sem hann svarar í beinni útsendingu spurningum, sem berast frá almenningi jafnharðan. Það er alveg ágætt en auðvitað er hann með aðstoðarmenn á kantinum sem velja ofan í hann spurningarnar. Í einhverjum tilvikum eru það erfiðar spurningar um erfið mál, Boris er alveg til í að taka þær, en það er þá alveg örugglega vegna þess að spunalæknarnir í Downingstræti telja best að taka á því málinu þar og þá. En megnið eru auðvitað spurningar sem ráðherrann hefur verið búinn undir að svara og honum hentar að svara. Svo það er ekki hið sama og aðhald fjölmiðla. Það er ágætt út af fyrir sig, en það er ekki hið sama.

                                                                                   * * *

Nick Robinson er einn af helstu fréttamönnum í hljóðvarpi BBC, mjög áreiðanlegur og vandaður í sínu starfi. Óvíst er hvað honum finnst um Boris, en þó er rétt að hafa í huga að í sinni er hann almennt talinn vera hægra megin við miðju. Hann notaði tækifærið á fundi á dögunum og fann að þessari nýbreytni forsætisráðherrans. Hann tók sterkt til orða og sagði þetta hreinan og beinan áróður, ekkert ósvipað því og einræðisherrar hefðu gripið til í gegnum aldirnar.

                                                                                   * * *

Nú er auðvitað hart fyrir Boris Johnson að vera kallaður einræðisherra, þegar hann er búinn að missa þingmeirihlutann og þingið að miklu leyti búið að taka völdin. Og vafalaust meinti Robinson það ekki heldur, þó hann hafi tekið svo til orða. En það er ljóst að hann er ósáttur við að ráðherrar geti með þessum hætti forðast fyrirspurnir fjölmiðla. Sem er vel skiljanlegt og sjálfsagt rétt. Hins vegar er erfitt að forðast þá hugsun að hann sé líka eilítð fúll yfir því að stjórnmálamenn — eða hverjir aðrir — hafi nú fundið greiða leið að almenningi án þess að þurfa að tala við hliðvörðinn.

                                                                                   * * *

Og svo er annað: Þegar fréttamaður hefur líkt ráðherranum við einræðisherra, getur hann þá talað við hann í útvarpinu aftur og þóst vera algerlega hlutlaus í hans garð?

Fjölmiðlarýni Andrésar Magnússonar birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.