Hlín Einarsdóttir, sem handtekin var ásamt Malín Brand systur sinni fyrir fjárkúgunartilraun á hendur forsætisráðherra, segir það uppspuna fréttamanna að málið hafi tengst yfirtöku á DV. Þetta segir hún í viðtali við DV í dag .

„Ég ætla ekki að fara neitt út í innihald bréfsins sem við sendum. Ég mun ekkert gera það fyrr en rannsókn málsins lýkur. Ég get þó sagt það að fjölmiðlar, eins og til dæmis Vísir, bókstaflega fabúleruðu um innihaldið í fyrstu fréttum af málinu og fréttaflutningur um að það tengdist yfirtöku á DV er uppspuni fréttamanna,“ segir Hlín í viðtalinu.

Malín Brand, systir Hlínar sem einnig var handtekin vegna málsins, sendi frá sér yfirlýsingu eftir að það komst í fréttir í síðasta mánuði þar sem hún sagðist hafa verið dregin í atburðarrásina sem hún hvorki hafi skipulagt né tengst á nokkurn hátt nema fjölskylduböndum. Hlín segir þetta ekki satt.

„Það eru hrein ósannindi af hennar hálfu að ég hafi ein staðið í þessu og að hún hafi einhvern veginn dregist inn í þetta út af mér. Það segir sig bara sjálft þegar hún kemur með mér í Hafnarfjörð að sækja töskuna,“ segir hún.