Fyrirtækið HljóðX, sem meðal annars rekur hljóðkerfa- og ljósaleigu, keypti nafn og lager hljóðfæraverslunarinnar Rín og sér nú um rekstur hljóðfæraverslunarinnar í Brautarholti. Ingólfur Arnarson, framkvæmdarstjóri HljóðX, segir söluverðið vera trúnaðarmál en að verðið hafi ekki verið hátt. Gengið var frá kaupunum í desember sl. og hefur Rín starfað í svo til óbreyttri mynd síðan þá. Stefnt er að því að sameina útibú HljóðX og hljóðfæraverslunarinnar í eitt sameiginlegt húsnæði að sögn Ingólfs þegar hentugt húsnæði hefur fundist.

Eignarhaldsfélagið Hljóðfæraverslunin Rín ehf., sem var í eigu Magnúsar Eiríkssonar tónlistarmanns og þriggja sona hans, fór með reksturinn á hljóðfæraversluninni þar til gengið var frá fyrrgreindum viðskiptum. Félagið hefur nú verið tekið til gjaldþrotaskipta. Magnús, sem fór með 42% hlut og var stærsti hluthafi félagsins, vildi ekki tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum. Páll Rúnar M. Kristjánsson var skipaður skiptastjóri þrotabúsins af Héraðsdómi Reykjavíkur. Samkvæmt Páli Rúnari hefur ekki verið lagt mat á það að svo stöddu hvort fullnægjandi endurgjald hafi verið greitt vegna þeirra verðmæta sem seld voru út úr félaginu áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta.