Íslensk framleiðsla á sterkum áfengum drykkjum er í blóma. Á síðustu árum hefur hvert fyrirtækið á fætur öðrum verið stofnað og nú er svo komið að fjórar eimingarverksmiðjur eru í landinu, sem er mikil breyting frá því sem áður var. Hátt í 50 sterkar áfengistegundir eru framleiddar á Íslandi.

Mikil fjölgun ferðamanna hefur gjörbreytt landslaginu fyrir áfengisframleiðendur og má segja að nú ríki ákveðin frumkvöðlastemmning í þessum geira. Áfengisframleiðendur eru mörgu leyti komnir á sama vagn og sprotafyrirtæki í matvælaframleiðslu. Það er engin tilviljun að á Íslandi eru til dæmis í dag tvö fyrirtæki að framleiða salt. Saltið er dýrari kantinum en neytendur eru samt tilbúnir að borga. Sömu sögu má segja um Omnom, sem framleiðir súkkulaði, Ástrík, sem framleiðir bragðbætt poppkorn og svona mætti áfram telja.

Þessi frumkvöðlastemmning, eða beint frá býli væðing, hefur náð að festa rótum í áfengisframleiðslu og í dag eru hérlendis framleiddir líkjörar úr birki, krækiberjum og aðalbláberjum, taðreykt viskí og snafsar úr söl og hvönn svo eitthvað sé nefnt.  Sem dæmi um þá vegferð sem íslensk áfengisframleiðsla er á þá var Eimverk Distillery valinn áhugaverðasti matarsprotinn á sýningunni Matur og nýsköpun á síðasta ári.

Á Hagstofunni er hægt að skoða útflutning áfengra drykkja og þá kemur í ljós að árið 2010 voru tæplega 400 tonn flutt út en árið 2015 var þessi tala komin í tæplega 2.700 tonn. Hafa verður í huga að hér er verið að tala um alla áfenga drykki, ekki bara sterkt áfengi. Útflutningur áfengis hefur því aukist um 575% á sex árum í tonnum talið.

vínframboð
vínframboð

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .