Uppfinningamaðurinn Hjalti Harðarson, einn af stofnendum Hafmyndar sem framleiðir og selur litla kafbáta sem notaðir eru til leitar og vinnu neðansjávar, hannar nú flugdróna í líki fugla. Fyrirtækið Flygildi ehf. varð til því hann þurfti nýjar áskoranir eftir að bandarískt fyrirtæki keypti hann og meðstofnendur hans út úr Hafmynd.

„Það fyrirtæki starfar enn þá í Kópavoginum, en viðskiptavinir þeirra hafa verið, utan bandaríska hersins, sem dæmi einnig sá kínverski og meira að segja rússneski herinn og margir aðrir aðilar. Kafbáturinn er seldur út um allan heim,“ segir Hjalti en hugmyndin að nýju drónunum kom út frá þeirri vinnu.

„Upphaflega var það þannig að mér datt í hug hvort hægt væri að búa til búnað sem gæti bæði flogið og kafað, þannig að það var svona framhald af kafbátahugmyndinni. Þá var nærtækasta fyrirmyndin fugl, en það er dálítið langt í að það náist. Þangað til þá flýgur hann en kannski einn daginn í framtíðinni gæti hann líka kafað.“

Leita að fjárfestum

Hjalti á Flygildi ásamt með þeim Leifi Þór Leifssyni og Agli Harðarsyni, en nýstárleg hönnun þeirra á flugdrónum hefur vakið athygli og hefur til að mynda verið fjallað um þá í erlendum fjölmiðlum.

„Við höfum verið að leita að fjárfestum undanfarið, við höfum verið í viðræðum við bandaríska fjárfesta og síðan koma fulltrúar frá þýsku fyrirtæki í næstu viku til að spjalla við okkur. En það er ekkert fast í hendi,“ segir Hjalti en starfsemina má rekja allt aftur til ársins 2010.

„Þetta hefur verið keyrt áfram á styrkjum, þá innlendum styrkjum frá Háskólanum í Reykjavík og svo Tækniþróunarsjóði en við höfum klárað alla styrkjamöguleika þar. Þetta hafa verið svona 60 til 70 milljónir sem við höfum fengið, en síðan höfum við lagt í þetta ómælda vinnu, svo erfitt er að meta hve mikið þetta hefur kostað hingað til.“

Hjalti segir fyrirmyndina vera sótt í mávinn, þótt hann viðurkenni að krían hefði kannski verið skemmtilegasta fyrirmyndin með sína miklu flugleikni, þá hafi það ekki gengið vegna stærðar.

„Við þurftum að miða við fugl sem er með vænghaf sem er rúmur metri. Þá getur hann líka svifið, sem ekki kostar jafnmikla orku og hjá venjulegum drónum sem eru með þyrluspaða,“ segir Hjalti sem nefnir bæði orkusparnað en einnig öryggismál sem helstu kosti þess að vera með drónana í líki fugls umfram núverandi þyrilvængjur.

„Núverandi drónar eru flestir líka svolítið háværir, með kannski fjóra, sex eða jafnvel átta mótara sem eru allir á fullu allan tímann og kostar það mikla orku að halda þeim á lofti. Þeir eru líka meira áberandi í lofti. Sama á við um fjarstýrðu flugvélarnar sem eru með skrúfu sem heyrist vel í, en þessi fugl er nánast hljóðlaus og lítur út eins og fugl á flugi.“

Möguleg nýting í hernaði

Spurður hvort hann sé að hugsa drónann fyrst og fremst til sölu til erlendra herja og lögregluyfirvalda, segir hann svo ekki vera.

„Það gæti þó verið að hann nýtist þannig, en þetta er fyrst og fremst öryggisatriði, því sums staðar setja menn beinlínis bann við notkun þyrilvængja yfir mannfjölda því ef þær hrapa geta þeir slasað fólk sem er síður hætta á með fuglinn,“ segir Hjalti og bendir á að hægt sé að hanna búnaðinn þannig að honum sé uppálagt að svífa í burtu frá mannfjöldanum ef eitthvað kæmi fyrir.

„Svo er oft á fjöldasamkomum ekki æskilegt að valda truflun á umhverfinu, hvorki með hávaða né einhverju sértöku áberandi í loftinu yfir hópnum. Með þessari tækni væri hægt að fylgjast með hópnum án þess að eftir því sé tekið en svo er dróninn það líkur fugli að radartæki geta ekki greint hann frá venjulegum fuglum. Náttúrulega er það mikilvægur þáttur fyrir mögulega hernaðarlega notkun.“

Gervigreindin lærir að fljúga

Það sem er byltingarkenndast við búnað Hjalta og félaga hjá Flygildi er hreyfigetan í vængjunum sem er mun meiri en í sambærilegum tækjum.

„Núna erum við komin með aðskilda hreyfigetu í sínum hvorum vængnum fyrir sig, sem geta þá farið bæði upp og niður og það er hægt að halla þeim til þess að breyta aðfallshorni vængsins og síðan er hægt að stækka hann og minnka, draga hann út og hreyfa fram og aftur,“ segir Hjalti en framfarir í gervigreind hefur gert þeim kleift að láta tækið læra að stjórna allri hreyfigetunni.

„Þetta eru alveg sömu hreyfingar og fugl hefur, þar með talið að við getum líka lagt vængina að búknum, þannig að þetta er orðin alger eftirmynd af fugli.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta skráð sig í Áskrift .