„Það er spurning hvort ég nái leigusamningi við bankann í einhvern tíma. En ég ætla ekki að reka svona aðstöðu áfram,“ segir tónlistarmaðurinn Magnús Kjartansson. Félag hans, MK hljóðver við Norðurbraut í Hafnarfirði hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og stefnir allt í að húsnæðið verði boðið upp. Magnús reiknar ekki með að margir bjóði í húsið fyrir utan Íslandsbanka sem á eignir Byrs.

Magnús er með þekktustu tónlistarmönnum þjóðarinnar og væri of langt mál að telja upp afrek hans á tónlistarsviðinu. Hann var m.a. í súpergrúppunum Trúbroti, Júdas og leikið með bæði Brimkló og Brunaliðinu.

Magnús keypti húsnæði hljóðversins með láni frá Sparisjóði Hafnarfjarðar á sínum tíma. Ekki liggur fyrir um hvers konar lán var að ræða en því var á einhverjum tímapunkti breytt í íslenskar og verðtryggðar krónur. Þegar afborganir af lánum hækkuðu um meira en helming sá Magnús enga ástæðu til þess að dansa í sama takti og fór félagið í þrot. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptastjóri hafi boðað við skiptafundar þar sem gerð verði grein fyrir úthlutun úr búinu.

Nýlegir ársreikningar MK hljóðvers liggja ekki fyrir. Samkvæmt þeim síðasta fyrir uppgjörsárið 2010 þá tapaði félagið 859 þúsund krónum og kom það til viðbótar við rúmlega 1,8 milljóna króna taps árið 2009. Eigið fé í lok árs 2010 nam 2,1 milljón króna. Á móti námu skuldir 953 þúsund krónum.

Magnús vildi ekki tjá sig mikið um málið í samtali við vb.is en benti þó á að upptökutækni hafi fleytt fram síðustu árin og leiti ungir tónlistarmenn ekki eftir því að vinna með þeim í eldri kantinum.