Það sannaðist á síðasta ári hve lánasjóðurinn er mikilvægur fyrir sveitarfélögin. Þegar bankakerfið hrundi gat lánasjóðurinn hlaupið undir bagga með þeim,“ segir Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra sveitarfélaga.

Sjóðurinn lánaði sveitarfélögunum alls 8,3 milljarða króna á síðustu fjórum mánuðum ársins 2008 en til samanburðar voru lánveitingarnar 600 milljónir síðustu fjóra mánuði ársins á undan. Alls 15,5 milljarðar voru lánaðir allt árið í fyrra en árið á undan voru lánaðir fjórir milljarðar

Hluti lánanna í fyrra , ekki síst síðustu mánuði ársins, var tilkominn vegna lóðaskila sem mörg sveitarfélög stóðu frammi fyrir í kjölfar bankahrunsins og fjárhagskreppu í framhaldi af því.

Gagnrýnisraddir virðast þagnaðar

Samkvæmt lögum hafa sveitarfélög þrjátíu daga til að greiða til baka peninga vegna lóðaskila. Á sama tíma og lóðaskilin jukust fóru bankarnir að halda að sér höndum við lánveitingar og seinna lokuðu þeir alveg fyrir lánveitingar. Þess vegna leituðu sveitarfélögin til lánasjóðsins. „Ég hef trú á því að lánasjóðurinn hafi  skipt verulega máli við úrlausn bæði vegna aðsteðjandi lausafjárvanda og framtíðarfjármögnunar nokkurra sveitarfélaga .“

Óttar segir að eftir bankahrunið virðist gagnrýnisraddir um tilvist sjóðsins hafa þagnað. „Það hafa ekki allir verið sammála því að það væri eðlilegt að sveitarfélög ættu lánasjóð. Ég hef hins vegar ekki heyrt neina andmæla því á undanförnum mánuðum. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir lánum frá okkur aukist mjög mikið."

Nánar er rætt við Óttar Guðjónsson í Viðskiptablaðinu.