Ég neita að trúa því að einstaklingar sem þiggja laun upp á fjórar milljónir á mánuði og eru einhvers staðar uppi í skýjunum fyrir ofan okkur hin þurfi síðan örvunarkerfi til að hreyfa sig í vinnunni,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, vegna umræðunnar sem hefur verið vegna kaupaukagreiðslna til forstjóra N1. Í Viðskiptablaðinu var staðan einnig rædd við framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands.

„Þetta finnst mér algjörleg galið og ábyrgðarlaust gagnvart starfsmönnum N1 og gagnvart vinnumarkaðnum. Þetta hlýtur að framkalla viðbrögð við næstu kjarasamninga og það kæmi mér ekki á óvart ef N1 væri upplagt fyrirtæki ef menn ætla í einhverjar skærur. Það hlýtur að vera jarðvegur fyrir því. Þetta er ekkert öðruvísi en kjararáð. Nú er þetta komið yfir á okkar vallarhelming. Það verður ekki sagt að stjórn N1 hafi ekki þekkingu á vinnumarkaði,“ segir Gylfi og ítrekar þær hugmyndir sem hann viðraði fyrir nokkru um 65% skatt á tekjur umfram tilteknar uppæðir, til dæmis tvær og hálfa til þrjár milljónir í mánaðarlaun.

„Öðruvísi verður ekki hægt að mynda sátt í þessu samfélagi. Atvinnulífið getur ekki skotið sér undan þessari ábyrgð. Ég blæs á tilvitnanir í kaupaukakerfi. Þú heyrir viðbrögðin. Þetta er leið sem menn eru að velja og hljóta að kunna stafrófið. Ef menn segja A, þá kemur B.“ Gylfi segir verkalýðshreyfinguna hafa beitt sér fyrir því að það hátterni sem þessar greiðslur séu til marks um séu andstæðar langtímahagsmunum íslenskra fyrirtækja. „Það samrýmist ekki langtímahugsun að stjórnir ákveði launakjör forstjóra í engu samhengi við það samfélag sem þessi fyrirtæki starfa í,“ segir Gylfi. „Ef þau eru að velta fyrir sér að einstaklingar vilji njóta alþjóðlegra kjara þá er það affarasælt að þeir stjórnendur fari bara út á hinn alþjóðlega markað og verði þar,“ segir Gylfi. Hann vill þó taka fyrirtæki á borð við Marel og Össur út fyrir sviga í þessari umræðu, þar sem það séu félög sem eru í grunninn íslensk en starfi að megninu til á alþjóðlegum mörkuðum. „En íslenskt olíufélag sem er að selja Íslendingum olíu og bensín og rækjusamlokur, kók og malt er bara ekkert þarna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .