Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Algalíf hefur hlotið Alþjóðlegu líftækniverðlaunin 2021 (e. Biotechnology Awards) sem besti framleiðandi á afurðum úr náttúrulegu astaxanthíni. Verðlaunin eru veitt af tímaritinu Global Health and Pharma sem er eitt víðlesnasta og virtasta fagtímarit á sviði heilsuvísinda, að því segir í fréttatilkynningu.

Verðlaunin eru veitt árlega í nokkrum mismunandi flokkum, en Algalíf er fyrsta íslenska fyrirtækið til að vinna þau. Þetta er í sjötta sinn sem Alþjóðlegu líftækniverðlaunin eru veitt. Algalíf, stærsta örþörungafyrirtæki á Íslandi, framleiðir astaxanthín úr örþörungum sem ræktaðir eru í starfsstöð fyrirtækisins í Reykjanesbæ.

„Starfsemin hefur gengið mjög að undanförnu og það er afskaplega ánægjulegt að fá viðurkenningu í formi þessara virtu verðlauna,“ segir Orri Björnsson, forstjóri Algalífs. „Þessi verðlaun eru fyrst og fremst rós í hnappagatið fyrir starfsfólk Algalífs.“

Sjá einnig: Orkuverð og loftslag veita forskot

Í lok síðasta árs var tilkynnt um fyrirhugaða stækkun fyrirtækisins í kjölfar fjögurra milljarða króna fjárfestingu frá erlendum fjárfestum. Algalíf tilkynnti þá um að 35 ný framtíðarstörf munu skapast hjá fyrirtækinu en starfsmenn Algalífs voru 35 talsins fyrir stækkunina.