*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Erlent 7. maí 2018 16:59

Hlutabréf Air France tóku dýfu

Gengi hlutabréfa Air France-KLM Group lækkaði um tæp 10% í dag, en mikil óvissa ríkir um framtíð Air France.

Ritstjórn
Air France og KLM eru dótturfélög Air France-KLM Group.

Gengi hlutabréfa Air France-KLM Group, fransk-hollenska móðurfélags flugfélaganna Air France, KLM og Servair, lækkaði um 9,8% í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni í París. Lækkunin er rakin til frétta af óvissu um framtíð flugfélagsins, að sögn BBC

Air France hef­ur átt í kjara­deil­um við starfs­fólk sitt undanfarna fjórtán daga og lagði starfsfólkið niður störf í dag eftir að hafa hafnað síðasta kjaratilboði flugfélagsins. Bruno Le Maire, efnahagsráðherra Frakklands, greindi frá því í gær að Air France gæti „horfið“ kæmi til frek­ari verk­falla. Þá hef­ur for­stjór­inn Jean-Marc Janaillac sagt upp störf­um. Mest fór lækkunin á hlutabréfaverði Air France-KLM Group í 13,4% í dag. 

Air France-KLM Group skilaði 269 milljóna evra tapi á fyrsta ársfjórðungi. Félagið hefur lækkað afkomuspá sína fyrir 2018. 

Efna­hags­ráðherra Frakk­lands hef­ur jafnframt gefið út að þrátt fyr­ir að franska ríkið eigi 14,3% hlut í fé­lag­inu muni það ekki koma því til bjarg­ar ef í harðbakka slær. 

Athygli vekur að gengi bréfa Icelandair Group lækkaði um 3,93% í 462 milljóna króna viðskiptum í dag. Hefur hlutabréfaverð félagsins ekki verið lægra í fimm ár. 

Stikkorð: Air France KLM flugfélög