Hlutabréf breska fasteignalánabankans Alliance & Leicester (A&L) hröpuðu í verði um 14% þegar markaðir opnuðu í morgun, eftir að félagið varaði fjárfesta við því að draga myndi úr aukningu í hagnaði á þessu ári.   Spá A&L kom á sama tíma og bankinn greindi frá því að hagnaður fyrir skatta á síðasta ári hefði lækkað um 30% vegna afskrifta á eignum með tengsl við bandaríska undirmálslánamarkaðinn.   Samtals nam hagnaður A&L fyrir skatta 399 milljónum punda, borið saman við 569 milljóna punda hagnað árið 2006, sem var töluvert undir væntingum greiningaraðila.   Sökum niðursveiflu í breska hagkerfinu og verðlækkunar á húsnæðismarkaði á þessu ári telur A&L ekki lengur rétt að standa við fyrri spá sína um 9% aukningu í hagnaði á hlut.