Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech var skráð á bandaríska Nasdaq-markaðinn fyrir tveimur vikum síðan eftir samruna við sérhæft yfirtökufélag. Gengi hlutabréfa Alvotech hækkuðu töluvert á fyrsta viðskiptadeginum en hefur í kjölfarið lækkað um fjórðung. Gengi félagsins lækkaði um 5,8% í gær.

Gengi hlutabréfa Alvotech í hlutafjáraukningu samhliða skráningunni var 10 dalir á hlut. Hlutabréfaverð Alvotech endaði fyrsta viðskiptadaginn í Bandaríkjunum í 11,19 dölum. Síðan þá hefur markaðsverðið fallið um 24,4% og stóð 8,46 dölum við lokun markaða í gær. Verðið er 15,4% undir útboðsgengi Alvotech.

„Við erum búin að vera undirbúa skráninguna frá því á síðasta ári. Til skamms tíma eru markaðirnir auðvitað annað hvort upp eða niður. Til lengri tíma höfum við hins vegar mikla trú á Alvotech og okkar viðskiptamódeli,“ sagði Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, í samtali við Viðskiptablaðið við skráningu félagsins.

Hlutabréf Alvotech voru einnig tekin til viðskipta á íslenska First-North markaðnum fyrir viku síðan. Líftæknifyrirtækið varð þar með fyrsta íslenska fyrirtækið sem er samtímis skráð er á markað í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Gengi hlutabréfa félagsins á Íslandi enduðu í 1.332 krónum á hlut á fyrsta viðskiptadeginum á fimmtudaginn síðasta. Síðan þá hefur gengið á First North-markaðnum lækkað um 2,2% og stendur nú í 1.303 krónum.