Hlutabréfaverð íslenska líftæknifyrirtækisins Alvotech hækkaði um 18,6% á bandaríska Nasdaq-markaðnum í gær. Gengið stóð í 9,14 dölum á hlut við lokun markaða og hefur nú hækkað um 65% frá því að það fór lægst í 5,53 dali fyrir mánuði síðan.

Alvotech var skráð á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum þann 16. júní eftir samruna við sérhæft yfirtökufélag. Gengi félagsins hækkað töluvert fyrsta viðskiptadaginn en lækkaði síðan um helming næstu fjórar vikurnar. Hlutabréf Alvotech hafa síðan rétt úr kútnum og stóðu í 9,14 dölum á hlut við lokun markaða í gær. Hlutabréfaverðið er þó enn 8,6% undir 10 dala útboðsgenginu í hlutafjáraukningunni í aðdraganda skráningarinnar.

Sjá einnig: Alvotech vill komast á aðalmarkað á Íslandi

Viku eftir skráningu vestanhafs voru bréf Alvotech tvískráð á íslenska First North-markaðinn. Alvotech tilkynnti svo í síðustu viku um áform að skrá hlutabréf félagsins á íslenska aðalmarkaðinn og ná þannig til breiðari hóps fjárfesta. Alvotech vonast til að vera meðal skráðra fyrirtækja hér á landi sem komast inn í vísitölu markaðsríkja hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell.

Hlutabréfaverð Alvotech á First North-markaðnum hafa hækkað um tæplega 9% í fyrstu viðskiptum dagsins og standa nú í 1.230 krónum. Taka skal þó fram að einungis 7 milljóna króna veltu hefur verið með bréf félagsins.