Hlutabréf bandaríska flugrisans American Airlines (AMR) hafa rétt úr kútnum í dag eftir algjört hrun í gær. Þá lækkuðu bréfin um 33%.

Í gær birtist á vef Wall Street Journal frétt um að AMR hafi ráðið lögfræðistofu til að kanna m.a. að fara í gjaldþrotameðferð.

Í dag hefur sá orðrómur þagnað og hlutabréf flugfélagsins hafa hækkað um 19% það sem af er degi. Enn er þó langt í land að þau nái verðum í upphafi viðskipta í gær.

Þó ekkert virðist hafa verið hæft í orðrómi gærdagsins er ljóst að efnahagsástandið í Bandaríkjunum og Evrópu setur strik í reikning bandarískra flugfélaga.