Danski hljómtækjaframleiðandinn Bang & Olufsen greindi frá því fyrir stundu að félagið hafi selt  þann hluta rekstrarins sem snýr að hljómkerfum í bíla til bandaríska Harman International Industries sem framleiðir m.a. Harman Kardon hljómkerfi sem einnig er að finna í mörgum bílum.

Félögin gera samning um að Harman geti selt vörur undir merki Bang & Olufsen.

Bang & Olufsen fær strax 1,17 milljarða danskra króna, um 23 milljarða íslenskra króna, fyrir söluna. Að auki fær félagið árlegar greiðslur í 20 ár, að minnsta kosti 12,7 milljónir danskra á ári, eða 250 milljónir íslenskra króna.

Hlutabréf B&O hafa hækkað um 28% í kjölfar fréttarinnar og kosta nú 63,5 krónur danskar hluturinn.