Deutsche Bank lækkaði um 9,5% í dag í miklum viðskiptum. Fjárfestar óttast að bankinn sé illa búinn ef markaðir verða stormasamir á næstunni. Commerzbank lækkaði einnig um 9,5%

Hlutabréf Deutsche Bank hafa lækkað um tæp 50% frá því október þegar John Cryan kom fyrst fram sem nýr bankastjóri þýska bankans. Þetta kemur fram á Wall Street Journal.

Miklar lækkanir í Grikklandi

Evrópskir bankar flestir eiga í vök að verjast á hlutabréfamörkuðum þessa dagana. Allir þrír stærstu bankar Grikklands, ef miðað er við eignir, lækkuðu um tæp 30%. Mest lækkaði Eurobank um 29,2%, National Bank of Greece lækkaið um 29% og Piraeus bank lækkaði um 27,2%.

Í Frakklandi lækkuðu Societe Generale um 6,1%, BNP Paribas um 5,5% og Credit Agricole um 5%.

Viðskipti stöðvuð

Viðskipti voru stöðvuð með hlutabréf Barclay´s bankans í kauphöllinni í Lundúnum. Bréfin höfðu þá lækkað um 5,3%. Royal Bank of Scotland lækkaði um 4,5% og Lloyds lækkaði um 4%.

Elsti banki í heimi lækkaði mikið

Ítalski bankinn Banca Monte Paschi Siena, sem var stofnaður 1472, lækkaði um 12% í dag. Banca Pop Emilia Romagna lækkaði um 11,9% og Ubi Banca lækkaði um 10,5%

Spænski Banco Popular lækkaði um 7,32%.